Ég er í kvíðakasti. Svo miklu kvíðakasti að ég gat með herkjum skúrað stofugólfið. Svo miklu kvíðakasti að ég get ómögulega þurrkað af og tekið til. Ég verð eiginlega að leggjast upp í rúm og lesa smá og gá hvort þetta líður hjá (vá!). Það ljós rann upp fyrir mér í morgun að dagmamman sem hann Arnaldur er búin að vera að venja sig við síðustu þrjár vikurnar er að fara í þriggja vikna frí eftir viku. það þýðir að Arnaldur fer til annarrar "mömmu" á meðan og ekki held ég nú að hann verði ánægður með það. Hún á heima í Christianshavn þannig að ég verð að vakna fyrir allar aldir, hjóla með bæði börnin þangað, skila honum og fara svo með Þorbjörgu í leikskólann og svo út í Kastrup í minn skóla. Mér fallast gersamlega hendur.
Svo ef þetta er ekki nógu kvíðavekjandi , þá lánaði ég í góðmennsku minni frænda mínum þvottakortið mitt í gær. Hann ætlaði að fá að þvo eina vél og skila kortinu strax aftur. En viti menn, hann er ekki enn þá kominn, svara ekki í símann og ég þykist vita að hann sé þegar lagður af stað í sumarfrí til Ítalíu. Ef ég er ekki með þvottakort get ég sko ekkert þvegið þangað til hann kemur aftur eftir tvær vikur.