Obb bobb obb !!!!
fimmtudagur, nóvember 30, 2006
|
 
Púff, sem betur fer finnst mér gaman að skrifa. Er búin að sitja við síðan klukkan tíu í morgun, ef frá er talinn smá göngutúr. Er búin. Finnst engin skömm í að glápa smá á sjónvarpið áður en ég skríð í bælið. Finnst heldur engin skömm í að fara ókristilega snemma að sofa. Ég get bara ekki sagt að ég finni fyrir nokkurri akkúrat núna. Furðulegt!

p.s. guð, ef þú lest þetta, þá væri ég alveg til í slatta af æðruleysi í viðbót, ég virðist ekki eiga alveg nóg af því. Takk.
 
miðvikudagur, nóvember 29, 2006
|
 
Í mínum huga eru buxnavasar til þess að geyma, annars vegar, peninga í og hins vegar, mjög mikilvægar upplýsingar, skrifaðar á litla bréfmiða sem meiga alls ekki tínast. Símanúmer eða lykilorð sem skipta öllu máli. Börnin mín eru sárasjaldan með svona mikilvægar upplýsingar á sínum snærum, venjulega koma þau heim með upplýsingar á stórum A4 blöðum og þá yfirleitt margar í einu; jólaföndur 23, aðventukvöld 12. o.s.f.v.
Einmitt út af þessum hugsanarökleysum mínum, þe. að halda vasa bara fyrir peninga og miða, bíður mín alltaf eitthvað óvænt þegar ég tek úr þvottavélinni. Rafhlöður, perlur, kúlur, hausar af einhverjum fígúrum, smápeningar, tyggjó og mjög mikilvægir og tilfinningaþrungnir "goggar" svo eitthvað sé nefnt.
Börnin mín eru löngu búin að fatta að buxnavasar eru til margs brúks, en ég hef ekki almennilega fattað að þau séu búin að fatta...
 
þriðjudagur, nóvember 28, 2006
|
 
Í gær treysti ég mér ekki í sund eftir allan Freud sem ég hef lesið undanfarið, einhver -tilbaka-í-móðurkvið-fóbía. Venjulega fer ég líka í sund þegar ÞS fer á sundnámskeiðið, annaðhvort ein, til að synda, eða með AG, til að leika. En í gær sat ég sem sagt á bakkanum með hinum mömmunum ( af hverju fara pabbar ekki með börnin á sundnámskeið? Er þeim alveg sama þótt að börnin drukkni eða hvað?).
Ég hef löngum þótt með eindæmum afskiptarsöm og kalla ekki allt ömmu mína þegar kemur að stjórnsemi, en þarna á sundlaugarbakkanum var mér allri lokið og mér leið eins og engli, afskiptarlega séð. Við hlið mér sat móðir drengs sem sendi bendingar og skilaboð til hans allan hálftímann sem námskeiðið varði. Strákgreyið, sem svo sannarlega var á milli tveggja elda, sundkennarans og mömmunnar vissi ekkert með hvorum fætinum hann ætti að troða marvaðann. "syntu áfram", "vertu fljótur", "snúðu við" "bringusund", "settu á þig sundgleraugun, for fanden", "fylgstu með kennaranum". Ég skil ekkert í því að henni sé ekki hent út. Blessuðum drengnum gengur ekkert að læra að synda því hann er svo upptekinn og taugaveiklaður af og útaf mömmunni, sem við gætum alveg eins kallað Hitler.
Ég veit ekki hvort ég hafi ætlað mér að draga einhverja ályktun af þessu, en sá ásetningur er alla vega gjörsamlega horfinn mér núna. Líklega hef ég bara ætlað að upphefja sjálfa mig og tel ég það nú gert...
 
mánudagur, nóvember 27, 2006
|
 
Það er búið að opna skautasvellið á kóngsins nýjatorgi og ég á ákaflega erfitt með að hemja mig. Mig langar þangað strax. En ég verð að læra, sértaklega nú fyrst að Sigga Lísa og Jonni eru væntanleg. Þau eru ágætis hvatning.
Annars gengur vel...
 
sunnudagur, nóvember 26, 2006
|
 
  Posted by Picasa
Sólarlag út um gluggann minn...
 
|
 
Ég held að það ætti að endurskoða fegurðarímyndir. Ég tók mér langan fegurðarblund í nótt, mjög langan, og vaknaði með ákaflega þrútin augu. Ég óska þess nú að auglýsingadísirnar og kvikmynda-og poppstjörnurnar fari að birtast á myndum með þrútin augu.
 
laugardagur, nóvember 25, 2006
|
 
Ég er ekki enn búin að fá skóna, er að rembast við að hugsa ekki um þá stöðugt, það á nefnilega að heita svo að ég sé að læra. Annað sem ég er að reyna að hugsa ekki um er; íbúðin sem ég ætla kannski að kaupa mér á Háteigsveginum, vísurnar um Ingibjörgu sem ég er búin að heita henni að semja og húfuna sem ég ætla bráðum að prjóna.
Áðan sá ég montið tré. Tré sem stóð eitt, langt frá öllum hinum, hátt og mjótt og alþakið laufum á meðan hin tréin norpuðu í nepjunni alsber og brothætt. Ég hugsaði með mér, mikið ansgoti er þetta montið tré og hljóp framhjá.
 
föstudagur, nóvember 24, 2006
|
 
Ég veit alveg að það er ekkert samsæri í gangi gegn mér, bara af því að ég fæ ekki skóna, sem ég er búin að ákveða að kaupa mér, í réttu númeri. Ég veit alveg að það er ekki verið að refsa mér fyrir eitt né neitt, með því að halda þessum skóm frá mér.
En mér líður samt svoleiðis. Af hverju má ég ekki fá þessa skó?
 
fimmtudagur, nóvember 23, 2006
|
 
Lífið verður bara súrara og súrara. Mikið er ég farin að hlakka til þess að skrifa endurminningarnar!
 
miðvikudagur, nóvember 22, 2006
|
 
Það gengur svo hægt að skrifa þessa ritgerð að ég er ekki búin að skrifa einn einasta staf. Ég er þó ekki enn farin að örvænta. Ég veit að þegar ég er búin að lesa nóg ælist ritgerðin út úr mér svo gott sem fullgerð. Ég er að vinna með Freud, Paul Auster og the uncanny, ef einhver skildi hafa áhuga.
Annars er ég í því að reyna að lifa lífinu, kyssa börnin mín og tala fallega við fólk, finna rigninguna á rjóðum vöngunum og njóta þess að vera til. Var minnt á það enn einu sinni í gær hvað lífið er hverfullt.
 
þriðjudagur, nóvember 21, 2006
|
 
Nýr dagur, nýtt upphaf?
Í gær svaf ég yfir mig, ekkert stórmál svo sem, en þegar maður býr einn með tveimur börnum þá sefur maður yfir fleiri en bara sjálfan sig. Þannig að ég ætti kannski heldur að segja; Í gær svaf ég yfir okkur.
Á þessu er alveg ljóst að ég hef ekkert að segja í dag.
 
mánudagur, nóvember 20, 2006
|
 
Fyrir utan gluggann minn er berfætt, skellihlæjandi kínverskt barn í skíðagalla!
En ég sit fyrir innan og er að spekúlera í því hvort maður eigi í alvörunni að hætta hverjum leik þá hæst hann ber. Og ef svo er, hvernig veit maður hvenær hann ber hæst?
 
sunnudagur, nóvember 19, 2006
|
 
Í nótt dreymdi mig að ég ætti uppþvottavél. Ég notaði hana samt eiginlega aldrei, eða það var svona hugmyndin. En svo þegar að líða fór á draumin fór ég að stelast til að setja í hana. Fyrst stóra hluti sem er leiðinlegt að vaska upp; potta og eldföst mót og svona. En þegar var alveg að vakna var ég gjörsamlega búin að missa tökin og það síðasta sem ég setti í vélina áður en ég vaknaði var kaffibolli. KAFFIBOLLI! Samviskubitið ræður líka ríkjum í draumunum...
 
laugardagur, nóvember 18, 2006
|
 
Um böggla og skammrif
Í gær var börnunum mínum boðið í strákapartý. Upphaflega áttu bara að vera í því strákar en ÞS tókst að troða sér með. Í partýinu var boðið upp á mat, ís, dans, tónlist, vídeó og næturgistingu. Nú, af því að ég hafið engin börn að passa, né nokkuð annað við að vera (les. nennti ekki að læra) þá fannst mér upplagt að fara út að borða og í bíó með kæró, sem ég og gerði. En ég var auðvitað með samviskubit yfir því að vera ekki með börnin mín allan tíman. Ég er farið að stór sjá eftir því að hafa látið klippa þessa blessuðu naflastrengi.

Ég er í vinnu, velborgaðri, einfaldri skúringavinnu sem ég fer í einu sinni í viku. Ég kann því ákaflega vel að fá peninga inn á reikninginn minn í hverjum mánuði. Svo finnst mér líka gott að komast aðeins burt, vera ein með sjálfri mér í friði til að láta hugann reika. Nágrannakonan mín góða, hún Ingibjörg, hefur nú tvisvar í röð boðið AG að vera hjá sér á meðan ég fer að skúra og ÞS fer í Íslensku skólan. Það er mjög gott, en eins og ég segi kæmi það ekki til ef naflastrengurinn væri enn streingdur á milli okkar mæðginana. En svo er nú ekki.
Ég fer á laugardagsmorgnum, í hendingskasti fyrst austur á brú með stelpuna og þaðan sem leið liggur norður yfir norður brú og alla leið upp í norðvest, sem er aðeins vestar en norðurbrú. Þegar þangað er komið skúra ég og þrýf eins hratt og ég mögulega get. Börnin gætu verið í einhverjum vanda sem engin nema ég get leist úr. Hendist svo aftur niður í Jónshús og haska ÞS heim á leið.
ÞS er alveg að verða átta, og þó maður sé alveg að verða átta getur verið erfitt að fóta sig í umferðinni í bænum, og einkum þó ef maður er á splunkunýju hjóli sem er í stærri kantinum. En móðirin, plöguð af samviskubiti, heldur stundum að það sé best að koma henni heim sem fyrst með því að öskra á hana í tíma og ótíma. Svo mikið oft, að meira að segja dösnkum þurrkuntum, sem eru einmitt frægar fyrir að öskra og garga á fólk og börn, og tuða og fussa, þykir nóg um. það gerði ég einmitt í dag og það gekk svo vel að blessað barnið fór að gráta undan móður sinni á miðri krónprinsessugötu.
Ekki læknaðist samviskubitið við það. Og ekki hjólaið stelpan neitt hraðar. En mér leið verr og verr.
Loksins þegar ég kom heim, öll í keng af stressi, með hausverk á stærð við Jökulsárlón, til að heimta drenginn úr helju, var hann sæll og glaður með besta vini sínum og móður hans á bókasafninu. Alveg skítsama um það hvort ég hafi flýtt mér eða ekki.
 
föstudagur, nóvember 17, 2006
|
 
Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig dagarnir geta liðið svona hratt. Mér finnst ég varla gera annað en að slökkva á vekjaraklukkunni og koma krökkunum á ról. Jú, og elda, mér finnst ég alltaf vera að elda. Mér finnst það alveg gaman, að elda sko, en þegar maður er alltaf að því og er alltaf að elda lasagne og steikja fisk þá verður það frekar hvimleitt. Einhverjir gætu sagt núna, -af hverju eldarðu þá ekki eitthvað annað? Svarið við því er einfallt, það ést ekki og ég hef ekki tíma. Ég væri sko alveg til í að standa dægrin löng og elda perluhænsn í rósablaðasósu og eitthvað slíkt, en þá verður að vera fólk til að borða það, ekki satt?
Svo væri líka alveg tilvalið að kaupa bara einhvern mat annað slagið, pizzu til dæmis, en það ést ekki heldur. Ég er því dæmd til að elda endalaust og slökkva á klukkunni inn á milli. Það gæti svo sem verið verra.
 
fimmtudagur, nóvember 16, 2006
|
 
Ég má til með að segja ykkur hvað ég er stolt af honum Einari Óla vini mínum. Ég er SVO stolt af honum, mér finnst hann svo duglegur og klár.
Annars er ég að læra og verð líklega að því alveg fram að jólum.
ha det bra...
 
þriðjudagur, nóvember 14, 2006
|
 
Er heima með veika dóttur. Hún kastar ekki upp í augnablikinu, sem er gott, en mér er orðið undarlega mikið bumbult.
 
mánudagur, nóvember 13, 2006
|
 
Datt út af eins og steinn í gærkvöldi án þess að geta svo mikið sem teygt mig í áttina að fjarstýringunni. Það var í sjálfu sér ósköp gott, öllu verra var að ég var með heimsókn!
En þrátt fyrir níu tíma stím, þótti mér það sko ekki nóg í morgun og nú heyri ég að rúmið er eitthvað að reyna að lokka mig aftur til sín, en ég ætla ekki að svara. Ætla ekki...
 
sunnudagur, nóvember 12, 2006
|
 
Það er búið að vera mikið að gerast hjá okkur um helgina. VIð erum búin að fara í vinnu og skóla, fá þrjár vinkonur hennar ÞS í mat og gistingu, fara í dýragarðinn og sunnudagskaffi, þrífa barnaherbergið, læra langt fram á laugardagskvöld og ég veit ekki hvað og hvað. Kvöldinu verður varið fyrir framan kassann...
 
laugardagur, nóvember 11, 2006
|
 
Á afmælisdegi móður minnar kaupi ég nýtt hjól handa dóttur minni. Hver veit nema ég kaupi hjól fyrir mömmu þegar dóttla á afmæli...
 
fimmtudagur, nóvember 09, 2006
|
 
Margur er með ilsig. Og svo er víst sælla að gefa en að þiggja.
 
|
 
Það koma víst bráðum jól...
 
þriðjudagur, nóvember 07, 2006
|
 
  Posted by Picasa
Dansinn brast svo skyndilega á að einungis náðust tvær myndir af herlegheitunum. Kannski getum við tekið þetta upp á vídeó þegar við sýnum á 'íslensku kvöldi' í konungshöllinni á næstunni. Sendiherrann hefur fengið veður af þessum afar þjóðlega stíl okkar Herdísar og ég hef hlerað að hann muni hafa samband bráðlega...
Annars er það að frétta að mér er alveg fyrirmunað að skilja þetta blessaða líf. Kannski er það heldur ekki ætlunin, þ.e. að skilja, miklu frekar að lifa því bara. Hætta að hugsa um það og bara gera. Eitthvað.
 
|
 
  Posted by Picasa
 
mánudagur, nóvember 06, 2006
|
 
Nú á ég nýjan síma en engin númer að hringja í. Viljiði vera svo væn að senda mér númerin ykkar í gamla númrið mitt, þ.e. ef þið viljið eitthvað heyra frá mér...
 
|
 
  Posted by Picasa
Á afmælisdaginn að opna gjafirnar...
 
|
 
Vá, hvað þetta er dúbíus, Hef ekki komist á netið heima hjá mér frá því á föstudag og til að tryggja að ég væri gjörsamlega sambandslaus við umheiminn, komu örlaganornirnar því þannig fyrir að ég týndi símanum mínum á föstudagskvöldið.

En nú er er netið dottið aftur inn og ég reikna bara með að ég finni símann einmitt þegar ég legg af stað á eftir til að kaupa nýjan.

Mikið er þetta annars búin að vera framúskarandi frábær afmælishelgi. 'Rehearsal dinner' á föstudagskvöld með Palla, Einari Óla, Herði, Christian, Birtu, Braga og Andreas. Og svo veisla á laugardagskvöldið sem mér fannst bara lukkast ljómandi vel. Það var söngur og dansur og svo enn meiri dansur aftaná. Böðvar Guðmundsson rithöfundur kom með nikkuna og tók nokkur lög og við Herdís sýndum tímamótadansinn fallegur dans. Fólk át og drakk og hló og skemmti sér og ég fékk voða fallegar gjafir og þakka hér með fyrir þær.
Svo er ég líka búin að fá fallegar gjafir með póstinum og þakka sko líka svakalega vel fyrir þær.
En nú er komið að því að reyna að ná aftur heilsu, til að massa skólann, ætla að gefa mér fram á morgundagin til að ná því ætlunarverki. Ég er vægast sagt þurrundin af orku eftir þessi gríðarlegu átök.
 
föstudagur, nóvember 03, 2006
|
 
Ja hérna, hvað ég er í góðu skapi, ég á bara ekki til orð!
Maginn er fullur af fiðrildum og kaffi, sem er einmitt heimsins besta blanda að morgni dags. Jibbí, gaman, gaman, hoppum allir saman, kátir eins og kettir í kóóóór!
 
fimmtudagur, nóvember 02, 2006
|
 
Ég held að ég sé búin að finna kjólinn. En það sem er öllu mikilvægara, kóríógrafían fyrir dansatriðið er líka komin á hreint. Þá þarf bara að æfa smá og sauma búninga. Mikið hlakka ég til!
 
miðvikudagur, nóvember 01, 2006
|
 
Hvurslags eiginlega er þetta með alla þessa kjóla. Þeir eru alls staðar og allskyns, en samt er enginn nógu góður fyrir mig!
 
|
 
Það er vetur hjá mér í dag. Ekki í sinninu þó, er öll betri en í gær. Enda annað ómögulegt, bæði væri það brot á öllum náttúrulögmálum og svo af því að mér finnst veturinn góður. Það er svo notalegt að pakka sér inn í lög af hlýjum fötum þegar maður breggður sér af bæ og ennþá notalegra að pakka sér út þegar heim er komið.
En talandi um pakka, má ég opna afmælispakkann sem kom með póstinum í dag?
 

AÐRIR
Vinkona Lára Sverrir Kata Sigga Lísa Regína Lilja Óli Ingibjörg Hel Magga Beta Bróðir Einar Óli Salka
ARCHIVES
01/01/2003 - 02/01/2003 / 02/01/2003 - 03/01/2003 / 03/01/2003 - 04/01/2003 / 04/01/2003 - 05/01/2003 / 05/01/2003 - 06/01/2003 / 06/01/2003 - 07/01/2003 / 07/01/2003 - 08/01/2003 / 08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 /


Powered by Blogger

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com