Í gær var ég með hálsmen. Það þykir kannski ekkert svo merkilegt, svona eitt og sér, en ég var ekki bara með hálsmen. Heldur var ég með það ALLAN daginn. Ennþá gætuð þið spurt ykkur hvað sé svona merkilegt við það og hér kemur svarið; mér hefur alltaf, alla mína hunda og katta tíð, liðið eins og ég sé í gapastokk þegar ég er með hálsmen!
Kannski finnst engum þetta merkilegt nema mér, en það er líka bara alveg nóg. Ég hef aldrei skilið hvernig fólk getur burðast með gapastokkana sína út um allan bæ og jafnvel tekið sig bara ljómandi vel út. Heldur hef ég aldrei skilið endalausar hálsmena-gjafir frá henni Jódu minni í gegnum tíðina. En hún hefur náttúrulega bara haldið að ég ætti engin almennileg hálsmen, úr því að ég var aldrei með þau.
En ég hef í laumi dáðst að annarra manna menum. Stundum meira að segja borið þau upp að hálsinum og mátað þau á mér, lokuð inni á klósettum í heimsóknum. Reynt að finna út úr því hvað sé öðruvísi við þau, þessi sem hinir eiga, en mín. Af hverju eru mín ekki eins góð? Af hverju á ég bara gapastokka? Er Jódu eitthvað illa við mig?
Svo kom ég oft heim úr svona heimsóknum, upprifin og setti upp eins og eitt men. En men ó men, það var aldrei séns að ég gæti borið neitt þeirra.
Þar til allt í einu í gær. Og ég skil ekkert í því hvað gerðist. Var með grænan stein frá Jódu um hálsin heilan dag í gær og núna er ég ofsalega spent að hengja öll hin á mig eitt af öðru. En auðvitað tek ég bara einn dag í einu, eins og er svo sniðugt að gera í lífinu. Hvort sem maður sé með hálsmen eða aðra skrautmuni.