Við verðum æ duglegri við það fjölskyldan að fara í sund. AG er farinn að myndast við að synda með froskalappir og ÞS er að klára sundnámskeið nr. tvö. Ég hef mest verið í því í vetur að þjálfa í mér þolinmæðina. Hanga í hlandvolgri barnalauginni og kasta bolta oní hring. Mér finnst bara ganga vel hjá mér.
Eins og lög gera ráð fyrir sjáum við á ferðum okkar í gegnum kvennaklefann mikinn fjölda nakinna kvenna. ÞS er mjög upptekin af þessu öllu saman. Brjóstum, rössum, örum, mjónum og fitubollum og bara öllu sem við sjáum. Fyrst átti hún það til að tala um þær við mig, konurnar, um leið og hún skoðaði þær, en smám saman hefur hún lært að það sé dónaskapur og nú tölum við um allt sem fyrir augu ber eftir að uppúr er komið.
Ég er svo sem ekkert mikið fyrir að glápa á berar konur. En ÞS fannst ég sýna þessu lítinn áhuga og eftir að hafa þurft að skamma mig nokkru sinnum, af því að ég hafði ekki getað talað um einhverja konu með ör á maganum eftir sund, er ég farin að taka mig á. Núna glápi ég næstum eins mikið og hún, en auðvitað bara til að gera tekið þátt í samræðunum.
Karlmaðurinn á heimilinu er sá eini sem er alveg ósnortinn af öllum þessum beru konum. Hann stendur bara undir sturtunni þangað til hann er dreginn undan og vafinn inn í handklæði.
Á mánudaginn var, vorum við svo í sturtunni og ÞS spyr mig allt í einu hvenær ég ætli að fara að klippa á mér hárið. Alveg grandalaus svara ég að ég sé nú að safna og sé ekkert að planleggja neina klippingu í bráð. " nei mamma, þú veist, "hárið"" segir hún og nikkar í áttina að klofinu á mér. "Mér finnst það vera orðið svolítið sítt".
Ég veit ekki hvort sé hægt að draga einhvern lærdóm af þessu. Hef oft sagt mér það, og reynt að sannfæra aðra um, að mæður séu helsta fyrirmynd stúlkubarna, en ég er ansi hrædd um að það séu frekar konurnar í sundlauginni.