Yndislegu börnin mín gengu ein í skólann í morgun. Svakalega voru þau eitthvað orðin stór. Og mikið var gott að vera komin til vinnu rétt rúmlega átta. Það þýðir nefnilega að ég þarf ekki að vinna lengi í dag. Mér finnst nefnilega alveg rosalegur munur á því að vega komin heim kl hálf fimm og fimm.
Jæja, en ég fór í leikhús í gær, sá fló á skinni. Svo sem ekkert sem kom á óvart; út um eina hurð og inn um aðra í ca. tvo tíma. Nokkrir ágætir brandarar. Samferðarfólk mitt skemmti sér vel og almennt var mikið hlegið í salnum. Ég held samt að það sé frekar leiðinlegt að fara með mér á allt sem er skilgreint "gaman", hvort sem það er mynd eða leikrit. Mér finnst það nefnilega allt svo fyrirsjáanlegt að mér stekkur varla bros. Ég er enn að bíða eftir "gaman" einhverju sem kemur mér á óvart. Hlakka til þess dags.
Á laugardag ætla ég í fjallgöngu. Ég held að það erfiðasta við hana verði að útbúa nesti bara fyrir mig eina. Á örugglega eftir að burðast með mat yfir Hengilinn fyrir heila fjölskyldu.